SAmfélag
Fyrir okkur öll

Hér finnur þú gagnlegar upplýsingar um Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við hvetjum þig til að kynna þér bæði efnið hér á vefnum, nánara ítarefni sem vísað er í og svo að sjálfsögðu þann veruleika sem fjölbreyttir og ólíkir hópar fatlaðs fólks búa við á Íslandi.

Réttindi eins eru réttindi allra

Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks inniheldur 60 aðgerðir sem snúa að mismunandi sviðum mannlífsins. Áætlunin var samþykkt á Alþingi árið 2024.

Samfélagið verður betra fyrir okkur öll ef réttindi allra eru virt.
Meira um Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks
Merki Sameinuðu þjóðanna

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn árið 2007 og fullgiltu hann árið 2016. Til stendur að lögfesta samninginn í heild sinni árið 2025. Einnig stendur til að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn, en hún felur í sér kæruleið vegna brota á samningnum.
Meira um samning Sameinuðu þjóðanna
Í vetur þurfti ég að mæta til að gefa skýrslu fyrir dómara en svo kom í ljós að stóllinn minn komst ekki inn í herbergið. Við þurftum að bíða á meðan fundinn var annar salur og svo færðum við okkur þangað. Eins og stressið væri ekki nóg fyrir.
Ég var einn frammi í afgreiðslunni um daginn og þá kom maður og spurði hvort það væri enginn að vinna hérna. Samt var ég í peysu með merkinu. Hann hélt bara að af því ég væri fatlaður þá gæti ég ekki verið að vinna hérna. Mér finnst það ekki sanngjarnt.
Ég get orðið alveg brjáluð á því hvað allt í umgjörð námsins er hugsað út frá bara einum, stöðluðum hópi fólks sem er með alla útlimi virka og hundrað prósent sjón og heyrn. Þá er ég að tala um hluti sem ættu ekki að koma náminu sjálfu við en snúa að fyrirlestrarrýmum, kennsluaðferðum, tæknibúnaði og slíku. Hlutum sem man hélt að væru bara komnir inn í nútímaháskóla.
Fermingarveisla frænku minnar var í sal á 10. hæð. Á fermingardaginn bilaði aðal-lyftan og litla lyftan fór bara upp á 9. hæð. Ég þurfti því að velja á milli þess að láta bera mig upp eina hæð eða missa af veislunni.